Nemendafélag FSH

20.9.2005

Umhverfisdagur í FSH

Í tilefni af umhverfisdegi í FSH fengum við í dag tvo góða gesti. Annar var Óli Halldórsson forstöðumaður Þekkingarseturs Þingeyinga og MA í umhverfisfræði. Hann fræddi okkur um sögu sorpeyðingar á Íslandi og starfsemi nýrrar sorpbrennslu sem er nú að rísa sunnan við bæinn. Þá sagði hann okkur frá umhverfismati sem Náttúrustofa Norðausturlands og Þekkingarsetrið unnu fyrir þessa framkvæmd og upplýsti okkur um mengun frá henni sem verður sem betur fer langt neðan við leyfileg mörk.
Hinn gesturinn var Hreinn Hjartarson verkfræðingur og framkvæmdastjóri Orkuveitu Húsavíkur. Hann leiddi okkur í allan sannleik um orkunotkun Húsvíkinga sem nánast öll fæst með heitu vatni úr iðrum jarðar og gerði samanburð við notkun annarra orkugjafa eins og olíu og kola. Hann sagði frá raforkuverinu sem er einstakt á heimsvísu og sér okkur fyrir um 90% af  raforkuþörf Húsavíkurbæjar. Þegar búið verður að virkja hitaorku sorpbrennslustöðvarinnar mun raforkuverið fullnægja allri raforkuþörfinni. Í umræðum lögðu nemendur áherslu á umhverfisvernd og að ekki mætti fórna dýrmætri náttúru fyrir skjótfenginn gróða.Hreinn Hjartarson Óli Halldórsson