Nemendafélag FSH

29.4.2005

Dimission í FSH

Nokkrir þreyttir útskriftarnemar Í dag er síðasti kennsludagur vorannar í FSH og gera dimittendur (útskriftarnemar) sér dagamun af því tilefni. Dagurinn var tekinn snemma og um kl. 04 fór að heyrast lúðraþytur og trumbusláttur út um allan bæ þegar þau heimsóttu kennara sína til að kveðja þá eftir fjögurra ára samstarf í skólanum. Þau voru klædd felulitabúningum svo vísast hefur einhverjum góðborgaranum brugðið við að sjá svo vígalegan her á götum Húsavíkur. Allt fór þó fram með miklum friði og á eftir buðu þau kennurum í staðgóðan morgunverð hér í skóla áður en kennsla hófst kl. 08. Þessi viðburður vekur alltaf upp nokkurn trega í kennaraliðinu, sem sér brátt á bak einum hópnum enn af úrvalsfólki sem hefur kynnt sig svo vel í skólanum og oftast náð góðum árangri í námi sínu. Á móti kemur ánægja og stolt yfir að geta skilað frá sér svo góðum efnivið til að takast á við ný verkefni á nýjum og oft fjarlægari slóðum og vissan um að þeim farnist vel og séu líkleg til að koma heim á ný og fái tækifæri til að glíma við fjölbreytt störf við sitt hæfi.