Nemendafélag FSH

4.2.2005

Fundað með menntamálaráðherra

Þorgerður Katrín Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og fylgdarlið hennar úr ráðuneytinu, þau Oddný Hafberg, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Karl Kristjánsson, heimsóttu FSH í gær. Þau áttu ágætan fund með starfsfólki skólans, stjórn nemendafélagsins og skólanefnd. Ráðherra kynnti skýrslu um breytta námsskipan til stúdentsprófs þar sem aðalinntakið eru tillögur um að stytta námstímann um eitt ár. Nám í framhaldsskóla taki þrjú ár í stað fjögurra og hluti af námsefni framhaldsskólans verði flutt til grunnskólans. Fram komu úr röðum heimamanna hugmyndir um að meira svigrúm væri til að stytta nám í grunnskóla um eitt ár af tíu og og án þess að breyta miklu í námskrám. Þróun framhaldsskólans síðustu áratugi, þar sem lögð hefur verið áhersla á einstaklingsmiðað nám í áfangakerfi, gæfi nemendum nú þegar tækifæri til að ljúka námi á skemmri tíma en fjórum árum og í FSH lýkur allt að fjórðungur nema stúdentsprófi á þremur og hálfu ári og einstaka nemandi á þremur árum. Með áfangakerfi á unglingastigi grunnskóla væri hægt að útskrifa alla þá, sem stefna á stúdentspróf og háskólanám, ári fyrr en nú er gert. Líflegar umræður og skoðanaskipti urðu á fundinum sem var hinn gagnlegasti. Hafi ráðherra kæra þökk fyrir komuna og frómar óskir fylgja henni um að vel takist til með fyrirhugaðar breytingar. Og svo er rétt að rifja upp að rætur Þorgerðar Katrínar eru hér á Húsavík. Langafi hennar var séra Jón Arason prestur á Húsavík 1891-1928. Hann var helsti hvatamaður að smíði Húsavíkurkirkju sem var vígð 1907 og hýsti þá næstum alla Húsvíkinga sem voru á sjötta hundrað. Einn sona Jóns var Kristinn kaupmaður, faðir Óla Kristins kaupmanns og afi Gunnars Rafns læknis svo dæmi séu tekin.  

Myndir frá fundinum